SAMSÝNING FÓKUS
Ljósmynd aðsend / Tryggvi Már
Fókus – félag áhugaljósmyndara var stofnað árið 1999 af hópi áhugaljósmyndara til þess að rækta áhugamálið, stunda jafningjafræðslu og njóta félagsskapar hvers annars, óháð aldri og fyrri störfum. Félagið hefur vaxið og telur nú rétt um 130 meðlimi. Það heldur reglulega viðburði, til dæmis kvöldrölt, fyrirlestra, vinnustöðvafundi, dagsferðir og lengri ferðir. Hápunktar félagsins eru útgáfa árbókar og árleg samsýning.
Samsýning Fókus verður haldin 20. febrúar til 1. mars 2025 í Gallerí Gróttu á bókasafni Seltjarnarness á Eiðstorgi. Þema sýningarinnar er „Andstæður“ og hefur mikill metnaður verið lagður í að tryggja gæði sýningarinnar, meðal annars með því að fá faglærðan sýningarstjóra, Díönu Júlíusdóttur, til þess að velja myndir og stýra uppsetningu. Nú í ár taka 39 áhugaljósmyndarar þátt í sýningunni og eru mörg þeirra að sýna verk á sýningu í fyrsta sinn.
Opnun sýningarinnar þann 20. febrúar er opin og við hvetjum alla sem áhuga hafa á ljósmyndun að líta við og sjá hvernig þessir ólíku ljósmyndarar nálgast og túlka þemað.