SAGA FÉLAGSINS
FJÖLBREYTT TILVERA ÍSLENSKRA LJÓSMYNDARA
Ljósmyndarafélag Íslands er 94 ára. Það var stofnað 1926 af átján ljósmyndurum sem störfuðu flestir í Reykjavík. Stofnendur eru Carl Ólafsson, Jón J. Dahlmann, Jón Kaldal, Loftur Guðmundsson, Magnús Gíslason, Magnús Ólafsson, Ólafur Oddsson, Ólafur Magnússon, Óskar Gíslason, Pétur Brynjólfsson, Pétur Leifsson, Sigríður Steffensen, Sigríður Zoega, Sigurhans Vignir, Sigurður Guðmundsson, Steinunn Thorsteinsson, Sæmundur Guðmundsson og Þorleifur Þorleifsson.Félagið var stofnað fyrst og fremst sem hagsmunafélag og beitti sér fljótt fyrir því að gerð yrði lágmarksgjaldskrá. 80 ár er hár aldur félags og mikið hefur drifið á daga Ljósmyndarafélags Íslands í áranna rás. Þegar félagið er stofnað eru íslenskir ljósmyndarar búnir að festa sér sess og voru dreifðir um landið þó flestir hafi verið í Reykjavík Að baki voru tímar frumherjanna sem höfðu verið duglegir í að mynda land og lýð með þeim aðferðum sem þá þekktust og er ómetnalegur sá arfur sem þeir skildu eftir. Framundan var tími nýrrar tækni sem gerði ljósmyndurum auðveldara um vik og greinina fjölbreyttari.Á Íslandi má rekja ljósmyndun allt til ársins 1845 þegar Frakkinn Alfred Des Cloizeaux kom til landsins og tók myndir. Cloizeaux var steindafræðingur og kom til Íslands í vísindaleiðangri sem átti að rannsaka silfurberg í námu í Helgustaðagili við Reyðarfjörð. Hann tók myndir í Reykjavík og getur þess í dagbókum sínum að hann hafi tekið myndir út um glugga á apóteki til að forðast að veður hefði áhrif á myndatökuna. Tvær yfirlitsmynda hans af Reykjavík hafa varðveist og sýnir önnur þeirra hluta byggðarinnar og skipaleguna í höfninni og hin húsaþyrpingu í Kvosinni Þegar Cloizaux kemur til Íslands er komin reynsla á ljósmyndina úti í heimi.Sögu ljósmyndatækninnar má rekja til franska uppfinningamannsins Joseph Nicéphore Niépce en hann hóf að gera tilraunir árið 1816 Árið 1824 tókst honum að gera varanlega mynd. Sá sem tók við af Niépce í þróun ljósmyndatækninnar er annar franskur maður, Louis-Jacques-Mandé Daguerre og er upphaf ljósmyndarinnar yfirleitt miðað við árið 1839 þegar hann kynnti nýja tækni fyrir meðlimum frönsku vísindaakademíunnar. Daguerre byggði niðurstöður sínar að hluta til á niðurstöðum Niépces og urðu þeir samstarfsmenn. Daguerre tæknin var við lýði í nokkur ár og hafa varðveist um tuttugu slíkar myndir af íslenskum mönnum og er sú elsta af Benedikti Gröndal, skáldi og náttúrufræðingi, tekin í Kaupmannahöfn 1848 og er handlituð deguerrótýpa. Tveir íslenskir menn, Helgi Sigurðsson, prestur á Melum í Melasveit og Siggeir Pálsson, prestur á Skeggjastöðum á Langanesströnd lærðu að taka ljósmyndir með aðferð Daguerres, en engar varðveittar daguerreótýpur eru eignaðar þeim.
ÞÁTTASKIL
Tækninni hafði fleygt fram þegar þáttaskil verða í sögu íslenskrar ljósmyndar með heimkomu Sigfúsar Eymundssonar frá Danmörku árið 1866. Er hann fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem gerir ljósmyndun að lífsstarfi, að vísu með öðrum störfum. Sigfús hafði upphaflega farið til Kaupmannahafnar og Bergen til framhaldsnám í bókbandi. Í Bergen var meistari hans jafnframt ljósmyndari og lærði Sigfús hjá honum. Í rúm 40 ár eða allt til ársins 1909 rak hann ljósmyndastofu í Reykjavík og var eftirsóttur þar sem ákveðið stöðutákn var að geta stillt upp ljósmynd á heimilinu. Sigfús nýtti sér möguleika ljósmyndarinnar til fjöldaframleiðslu og aflaði sér tekna með því að framleiða myndir af köppum úr fornsögunum, embættismönnum, skáldum og þjóðfrelsishetjum svo eitthvað sé nefnt. Mannamyndir Sigfúsar mótuðu stefnuna hér á landi í gerð slíkra ljósmynda auk þess sem hann var duglegur að fara á meðal fólks og mynda alþýðuna við störf. Hafa varðveist fjöldi ljósmynda eftir Sigfús Eymundsson. Þá gerði Sigfús sér fljótt grein fyrir möguleikum ljósmyndarinnar sem landkynningu og líklega var hann fyrstur Íslendinga til að meta landslagið sem söluvöru. Ljósmyndurum fjölgaði hægt og bítandi og ólíkt flestum öðrum iðngreinum var ljósmyndun ekki kynbundin iðngrein á Íslandi frekar en í öðrum löndum. Fyrsta konan frá Íslandi sem lærði ljósmyndun kom frá Djúpavogi. Hún hét Nicoline Weywadt og lærði hún í Kaupmannahöfn veturinn 1871_1872. Þar sem hún starfaði á Djúpavogi eru myndir hennar, fyrir utan mannamyndir, yfirleitt myndir af þéttbýlisstöðum á Austurlandi. Með tilkomu þurrplötunnar og að ljósnæmar himnur voru festar á filmur en ekki gler, fjölgaði ljósmyndurum á Íslandi, sérstaklega þó þeim sem eingöngu tóku myndir sér til gamans. Þeir sem gerðu út á ljósmyndun að einhverju leyti gengu í Dansk fotografisk Forening og voru í því félagi um árabil. Fyrstur í félagið var Sigfús Eymundsson. Danskir ljósmyndarar höfðu stofnað félagið 1979 og á vettvangi þess voru ljósmyndir eftir Íslending fyrst sýndar erlendis.
Á félagsfundi Dansk fotografisk Forening í ársbyrjun 1886 voru sýndar tíu landslagsmyndir eftir Sigfús Eymundsson.
–
UPPGANGSTÍMAR
Þegar ljósmyndurum fjölgaði og rekstur á ljósmyndastofum varð stöðugri fluttist grunnmenntun í greininni til landsins, en frekara nám var yfirleitt sótt til Danmerkur. Starfstími ljósmyndara á þessum árum var frekar stuttur og það vekur athygli hve víða ljósmyndarar störfuðu á Aust- og Vestfjörðum en vegna mannfæðar lagðist ljósmyndun fljótt af sem atvinnugrein á fámennum stöðum. Eftir aldamótin 1900 komu nýir ljósmyndarar fram á sjónarsviðið og var einn þeirra Magnús Ólafsson, sem var fyrstur íslenskra ljósmyndara til að auglýsa myndatökur með leifturljósi. Magnús Ólafsson, sem var fyrsti formaður Ljósmyndarafélags Íslands lagði stund á undirstöðufræði ljósmyndunar á ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar í Reykjavík og hjá danska hirðljósmyndaranum Peter Elfelt í Kaupmannahöfn árið 1901. Í Kaupmannahöfn keypti Magnús sér fullkomin tæki til ljósmyndunar og setti upp ljósmyndastofu í Reykjavík skömmu síðar. Magnús ferðaðist víða um land og var einn af brautryðjendum í töku landslagsmynda hér á landi. Jafnframt var Magnús fyrstur til að framleiða stereóskópmyndir, einkum landslagsmyndir, sem vöktu athygli innanlands sem utan á íslenskri náttúrufegurð. Miklir uppgangstímar voru hjá ljósmyndurum í Reykjavík á fyrstu árum 20. aldarinnar. Nýjar ljósmyndastofur ljósmyndaranna Péturs Brynjólfssonar, Bjarna K. Eyjólfssonar, Gunhild Thortseinsson og Carls Ólafssonar sérfæðu sig í mannamyndum og gæðin urðu betrir og betri. Ljósmyndastofurnar nutu samt aðeins tímabundinna vinsælda og voru allar hættar rekstri um miðjan annan áratug aldarinnar. Ljósmyndarar stóðu upp úr 1920 frammi fyrir breyttri stöðu ljósmyndunar. Samdráttur var í tökum á mannamyndum og albúmin á heimilum voru ekki lengur stöðutákn heldur hverdagsleg eign. Á sama tíma var ljósmyndin að sækja fram á nýjum stöðum og að ryðja sér til rúms sem fréttamiðill í blöðum og við auglýsingagerð. Nýir ljósmyndarar komu til sögunnar og þeir áttu eftir að leiða greinina fram yfir miðja öldina. Þeir helstu sem komu fram á þessum árum eru Ólafur Magnússon, Sigríður Zoega, Jóhanna Pétursdóttir, Loftur Guðmundsson og Jón Kaldal. Filmur voru komnar í gagnið á ljósmyndastofum erlendis, en athyglisvert er að þessi nýja kynslóð ljósmyndara hélt áfram að nota glerplötur. Þannig hélst það lengi fram eftir öldinni.
HAGSMUNIR OG SÝNINGAR
Eins og segir í upphafi var Ljósmyndarafélag Íslands stofnað 1926 til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna. Auk tilkomu lágmarksgjaldskráar beitti félagið sér fyrir föstum frídögum um hátíðir og á sumrin og áralöng barátta um lækkun á tollum á ljósmyndavörum hófst. Starfsemi félagsins hefur verið í hæðum og lægðum og oftar en ekki hefur skort styrk til að fylgja eftir baráttumálum af fullum krafti. Félagið hefur aldrei verið fjölmennt enda aðeins þeir gjaldgengir sem hafa full réttindi og enginn er skyldugur til að vera í félaginu. Ári eftir stofnun Ljósmyndarafélag Íslands er menntun í greininni lögbundin í iðnfræðslulögum, en það var eitt af stefnumálunum félagsins í upphafi. Árið 1928 kemur reglugerð með iðnfræðslulögunum þar sem kveðið var á um námstíma í einstökum greinum þar á meðal ljósmyndun. Nám í ljósmyndun skyldi vera þriggja ára námsdvöl við störf hjá meistara. Liður í námi til sveinsprófs var almennt bóklegt nám í Iðnskólanum. Vigfús L. Friðriksson tók fyrstur sveinspróf í ljósmyndun á Akureyri 1927. Í Reykjavík voru Hanna Brynjólfsdóttir og Ingbjörg Sigurðardóttir fyrstar til að taka sveinspróf árið 1930. Þær lærðu báðar hjá Lofti Guðmundssyni. Margir ljósmyndarar hafa gengt stöðu formanns Ljósmyndarafélags Íslands. Lengst var formaður Sigurður Guðmundsson, sem var formaður í 24 ár og næstur á eftir honum er Þórir H. Óskarsson, sem var formaður félagsins í 22 ár og hafa þessir tveir ljósmyndarar stýrt félaginu í meira en helming líftíma þess. Þórir er heiðursfélagi og man tímanna tvenna í starfseminni. Hann segir starfsemina hafa löngum byggst í kringum einn aðalfund á ári og honum hafi oft verið fylgt eftir með sýningu og skemmtikvöldi. Einnig var hugað að samstarfi við önnur Norðurlönd og Ljósmyndarafélag Íslands var lengst af í sambandi norrænna ljósmyndara. Var farið á fundi þess og þeir komu hingað og var meðal annars einn sameiginlegur fundur norrænna ljósmyndara haldinn á Höfn í Hornafirði. Sem hagsmunafélag var Ljósmyndarfélag Íslands í samstarfi við Iðnskólann í Reykjavík um kennslu og á sínum tíma var jafnvel hugmynd uppi um að stofna ljósmyndasvið innan skólans, sem ekki varð úr. Hefur fyrirkomulagið því ávallt verið með ljósmyndanám að nemandinn er hjá meistara, en sækir bóklegt nám í Iðnskólanum. Ljósmyndarafélag Íslands hefur haldið margar sýningar sem sumar hverjar hafa vakið athygli. Sjálfsagt var ein frægasta sýningin haldin á 35 ára afmæli félagsins árið 1961 í Listamannaskálanum. Á þessari sýningu var í fyrsta sinn á Íslandi sýndar opinberlega myndir af nöktu fólki. Sýningin vakti mikla athygli og umtal og sýndist sitt hverjum um framtakið. Þá er skemmst að minnast að á 70 ára afmælisári félagsins voru haldnar tvær sýningar. Önnur bar yfirskriftina Að lýsa flöt og var hún í Gerðarsafni í Kópavogi. Þar voru sýndar um það bil 400 ljósmyndir eftir 56 ljósmyndara. Hin sýningin var í Ráðhúsi Reykjavíkur. Á þeirri sýningu gaf að líta þverskurð af þeirri ljósmyndun sem félagsmenn voru að fást við í starfi sínu og áttu 35 manns myndir á sýningunniFélagið hefur löngum verið í norrænu samstarfi og tekið þátt í samsýningum á norrænum vettvangi. Að sögn Þóris H. Óskarssonar var oft vilji í félaginu til að halda uppi fræðslu og kynningum á ljósmyndun, en vegna smæðar félagsins og fjárskort hafi verið erfitt að koma slíku í framkvæmd. Helst hafi verið reynt gera félagið sýnilegra á stórafmælum þegar settar voru upp sýningar og málþing haldin. Í tilefni af 80 ára afmæli Ljósmyndarafélags Íslands hefur félagið í samstarfi við Eimskip efnt til samkeppni hjá félögum um ljósmyndir á næsta almanak félagsins. Eimskip hefur gefið út dagatal frá árinu 1928. Á fyrstu árunum var það prýtt teikningum. Síðan voru ljósmyndir valdar í almanakið og meðal ljósmyndara sem hafa átt myndir á almanakinu eru Páll Stefánsson, Rafn Hafnfjörð, Sigurgeir Sigurjónsson, Lárus Karl Ingason. Árið 1992 var skipt úr landslagmyndum yfir í portrett myndir sem fengnar hafa verið hjá atvinnuljósmyndurum. Almanakið hefur verið gefið út í 15000 eintökum á hverju ári.
FJÖLBREYTNIN EYKST
Á þeim 87 árum sem Ljósmyndarfélag Íslands hefur starfað hafa tæknibreytingar orðið miklar og ein stærsta breytingin er þegar þróaðir myndavélanemar sem umbreyta ljósi í stafrænar myndir koma fram og í kjölfarið árið 1986 tókst að finna upp megamynddeplanema sem gat vistað 1,4 milljónir mynddepla. Það er svo árið 1990 sem Photo CD kerfið kemur fram en í því var hægt var að setja stafrænar ljósmyndir á geisladisk til einfaldrar skoðunar. Fyrstu stafrænu myndavélarnar sem komu á almennan markað og hægt var að tengja við heimatölvu var Apple QuickTake 100 myndavélin árið 1994 en Kodak var ári á eftir með DC40 myndavélina. Íslenskir ljósmyndarar sem voru fljótir að tileinka sér ljósmyndatæknina í upphafi voru einnig fljótir að tileinka sér nýju stafrænu tæknina, sem orðin er allsráðandi í dag. Á síðustu áratugum hafa félagar í Ljósmyndarafélagi Íslands fengist við afar fjölbreytileg viðfangsefni og sett þau fram á margvíslegan hátt. Myndefnið og efnistök hafa breytst frá því að vera aðallega landslag og portrett myndir í að myndavélinni hefur verið beint að samfélaginu, verkum mannanna og þætti mannsins í umhverfinu. Upplifun ljósmyndarans kemur skýrar fram í viðfangsefninu hvort sem sú upplifun er tilbúin eða raunveruleg. Í dag er ljósmyndin mikilvægur þáttur í mannlífinu, segir sögur af veraldaratburðum á sama tíma og það festir minningar á pappír. Með ljósmyndavélinni náum við fram andartökum sem aldrei verða endurtekin og eru geymt en ekki gleymd.
—
Hilmar Karlsson
—
Heimildir: Ljósmyndarar á Íslandi 1845_1945: Inga Lára Baldvinsdóttir.
Þórir H. Óskarsson, fyrrverandi formaður Ljósmyndarafélag Íslands. Morgunblaðið.