Fyrirlestur - Árni Sæberg

Einfari með svarthvítt ljósmyndaauga

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Já, þær voru grípandi og spennandi sögurnar sem við heyrðum á frábæru ljósmyndakvöldi með Árna Sæberg á fullu húsi í fyrirlestraröð Ljósmyndarafélags Íslands síðastliðinn miðvikudag. Þökkum öllum sem mættu og Árna fyrir einstaklega frábæran myndasýningu og líflega einstaka frásögn!

Árni er okkur flestum kunnugur sem einn af okkar allra fremstu blaðaljósmyndurum. Hann hefur sinnt öllum helstu fréttaljósmyndaverkefnum hjá Morgunblaðinu síðastliðin 40 ár.

Árni hóf ljósmyndaferil sinn þegar hann starfaði á varðskipi hjá Landhelgisgæslunni árið 1979 en þar kynntist hann skipverja sem iðkaði ljósmyndun um borð. Árni sýndi þessari iðju mannsins mikinn áhuga, fékk að prófa og þar með varð ekki aftur snúið.
Hann hóf svo störf hjá Hans Petersen og vann þar við framköllun. Síðar starfaði hann hjá Sigurði Þorgeirssyni og þvældist um með honum í myndatökum, sem var að sögn Árna góður skóli.

Árið 1983 starfaði Árni sem ljósmyndari á Tímanum, en flutti sig yfir á ljósmyndadeild Morgunblaðsins um ári síðar, þar sem hann hefur starfað óslitið síðan við fréttaljósmyndun. Hann segist hafa lært gríðarlega mikið hjá Morgunblaðinu í öll þessi ár og það séu forréttindi að starfa með með fólkinu þar.

En Árni sinnir líka mikið af persónulegum verkefnum og myndasyrpur hans hafa birst víðsvegar um heiminn. Hann hugsar í myndum, frekar en orðum og verandi lesblindur hentar ljósmyndun Árna sérstaklega vel. Hann er einfari og segist vita fátt betra en að vera einn í náttúrunni með myndavélina.

Við dettum núna í sumarfrí en komum sterk inn í september með öfluga og fræðandi dagskrá fyrir ljósmyndara.

Ljósmyndir: Gunnar Leifur Jónasson

Ljósmyndarafélag Íslands

Félag atvinnuljósmyndara á Íslandi

http://ljosmyndarafelag.is
Previous
Previous

Reykjavík Foto x Leica

Next
Next

Aðalfundur 13. mars 2024