Stuð á jólahátíð ljósmyndara
11. desember 2024
Þann 11. desember sl. var efnt til hátíðar hjá ljósmyndarasamfélagi landsins með skemmtilegum jólaviðburði Ljósmyndarafélags Íslands og Blaðaljósmyndarafélagi Íslands. Þar komu saman um og vel yfir 50 ljósmyndarar og gestir félaganna sem skemmtu sér á veglegu jólahlaðborði á veitingastað Silla kokks að Höfðabakka 1. Dagskráin var keyrð áfram með góðri samfélagsstund með spjalli og drykkjum áður en dýrindis matur Silla var borinn fram og fyrirlestur Jeroen ljósmyndara var fluttur. Hann flutti fróðlegan fyrirlestur um sín störf og sýndi magnaðar ljósmyndir af ísbjörnum teknum á Canon sem alllir viðstaddir heilluðust af.
Allir mættir sameinuðust í góðu samtali og á milli atriða var dregið í glæsilegu happdrætti sem Ljósmyndarafélag Íslands stóð fyrir, en stjórn félagsins hafði safnað happadrættisvinningum frá velunnurum félagsins að miklum verðmætum svo margir fóru heim með góða gjöf í farteskinu.
Stjórn félagsins hafði komið saman og ákveðið að veita viðurkenningu til aðila sem hafa unnið farsællega með samfélagi atvinnuljósmyndara og að þessu sinni hlutu Halldór Garðarsson hjá Canon á Íslandi / Origo og Bjarki Reynisson hjá Reykjavík Foto viðurkenninguna fyrir þeirra lipurð, jákvæðni, stuðning og framlag til samfélags atvinnuljósmyndara á Íslandi. Hér að neðan eru skemmtilegar myndir sem Gunnar Leifur tók á viðburðinum. Það var frábær mæting og við viljum þakka ykkur öllum kærlega fyrir komuna. Það er mikilvægt að hittast, styrkja tengsl ljósmyndara á Íslandi og eyða tíma saman. Þetta var rosalega gaman.
Að lokum viljum við þakka eftirfarandi fyrirtækjum og einyrkjum fyrir frábæra happdrættisvinninga: Reykjavík Foto, Canon á Íslandi, Sony á Íslandi, DJI Reykjavík, Beco, Silli kokkur, Pixlar, Advania, Ása Steinars, Sigurður Ó. Sigurðsson, Mr. Iceland, Panorama Glass Lodge, Sælkerabúðin, Nova, Cintamani, Úti tímarit, Heimkaup, Verandi, Tropic, Nói Siríus, Ice Explorers, Chris Burkard, Stjörnugrís, Stolta Art, Kol, Hugbúnaðarsetrið Adobe á Íslandi, Bernhöftsbakarí, Hertz, Regalo, H. Pálsson og Dimm verslun. Þessi fyrirtæki veittu félaginu frábæran stuðning og við vonum að atvinnuljósmyndarar beini viðskiptum sínum til þeirra.