Ljósmyndun í listrænum verkum
Næst í fyrirlestrarröðinni hjá okkur er María Kjartansdóttir ljósmyndari, listamaður og formaður FÍSL.
María útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2005 (BA) og Glasgow School of Art árið 2007 (MFA). Hún hefur síðan sýnt ljósmyndir sínar og stuttmyndir í yfir sjötíu samsýningum, einkasýningum og listviðburðum víðsvegar um heiminn.
Ásamt því að starfa sem sjálfstæð listakona í Reykjavík er María ein af stofnendum og listrænum stjórnendum fjöllistahópsins Vinnslan www.vinnslan.com þar sem hún hefur undanfarin ár unnið að tilraunakenndum sviðs- og kvikmyndaverkum og viðburðum.
María hefur síðastliðin 10 ár ásamt leikstjóranum Völu Ómarsdóttur og tónlistarmanninum Bigga Hilmars framleitt stuttmyndir, tónlistarmyndbönd og sviðslistarverk undir eigin hatti.
María hefur hlotið fyrstu verðlaun fyrir ljósmyndaseríur sínar hjá Magnum Photos, Ideas Tap og Art Elite Signature Art Prize í London og Helsinki Photo Festival í Finnlandi.
Nýjustu verkefni Maríu eru listræn stjórn, ljósmyndun og vídeó-innsetningar á sviðslistarverkinu Proximity sem framleitt er af VINNSLAN og var frumsýnt í Shakespeare leikhúsinu í Gdansk í Mars 2023. Einnig listræna stuttmyndin Sprungur sem frumsýnd var á RIFF kvikmyndahátíðinni í Reykjavík haust 2022.
Hlökkum til að heyra frá Maríu og sjá sem flesta á þessum spennandi viðburði!