Fulltrúar Ljósmyndarafélagsins...
...sinna mörgum hlutverkum í tengdum samtökum, félögum og opinberri stjórnsýslu. Hlutverk okkar er að tengja samtök atvinnuljósmyndara við aðra aðila á markaði, gæta hagsmuna greinarinnar og viðskiptavina hennar og stuðla í gegnum þessi hlutverk sín að heilbrigðum og öflugum ljósmyndamarkaði á Íslandi.
Fulltrúi félagsins í stjórn samtaka Iðnaðarins
Innan Samtaka iðnaðarins eru 1.400 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Þau eru mjög ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða.
Hin mikla fjölbreytni sem rúmast innan samtakanna gerir starfið í senn vandasamt og nauðsynlegt. Þess er gætt að leggja áherslu á það sem er sameiginlegt en um leið hlúð að því sértæka. Þetta hefur tekist með svo farsælum og árangursríkum hætti að Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda í landinu. Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum og í nánu samráði við fyrirtækin sjálf. Þjónusta við félagsmenn er annars vegar við einstök fyrirtæki og starfsgreinahópa en hins vegar þverfagleg, s.s. í gæðamálum, menntamálum og markaðs- og kynningarmálum.
Guðmundur Viðarsson ljósmyndari er rödd félagsins í stjórn Samtaka Iðnaðarins. Félagið er aðili að samtökunum eins og flest iðnfélög og njóta félagsmenn ýmiskonar þjónustu þaðan. Með þátttöku í stjórn hefur félagið beina aðkomu að brýnum hagsmunamálum félagsmanna í starfsumhverfi iðnaðarins.
Stjórn Myndstefs
Myndstef – Myndhöfundarsjóður Íslands var stofnað árið 1991 og er stjórnað af stjórn sem samanstendur af fulltrúum allra aðildarfélaga Myndstefs. Tilgangur samtakanna er að fara með höfundarétt félagsmanna vegna opinberra endurbirtinga og sýninga á verkum þeirra og stuðla að almennri höfundaréttargæslu á þessu sviði. Aðilar að samtökunum eru félög; myndlistarmanna, ljósmyndara, teiknara, leikmynda- og búningahöfunda, arkitekta, hönnuða og ýmissa annarra stofnanna og einstaklinga sem fara með höfundarétt myndverka.
Myndstef innheimtir þóknun fyrir notkun á höfundarétti félagsmanna sinna og kemur henni til skila til þeirra. Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Myndstef fylgist einnig með og leitast við að hafa áhrif á þróun laga og reglna svo og viðskiptahátta á þessu sviði og annast samningagerð félagsmanna við opinbera aðila og einkaaðila um höfundaréttarleg hagsmunamál félagsmanna. Myndstef veitir félagsmönnum sínum einnig lögfræðilega ráðgjöf varðandi höfundarétt og gerð samninga.
Ljósmyndarafélag Íslands á fulltrúa í stjórn Myndstef og því með púlisinn á brýnum höfundarréttarmálu er varða ljósmyndara og verk þeirra.