Ljósmyndarafélag Íslands tengist öðrum félögum, fyrirtækjum og stofnunum með ýmsum hætti enda snertir ljósmyndun á ótal hliðum mannlífsins.


Origo

Origo áður Nýherji og umboðsaðili Canon á Íslandi er aðalstyrktaraðili Ljósmyndarafélags Íslands og hefur stutt við bakið á okkur og starfað með okkur í fjölmörgum verkefnum í gegnum tíðina. Kunnum við þeim miklar þakkir fyrir þeirra framlag og frábært samstarf.

Origo er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni. Hlutverk fyrirtækisins felst í að aðstoða viðskiptavini að ná enn betri árangri í sínum rekstri með aðstoð upplýsingatækni, sérfræðiþekkingu starfsfólks og lipurri þjónustu. 


Samtök Iðnaðarins

Innan Samtaka iðnaðarins eru 1.400 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Þau eru mjög ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða. 

Hin mikla fjölbreytni sem rúmast innan samtakanna gerir starfið í senn vandasamt og nauðsynlegt. Þess er gætt að leggja áherslu á það sem er sameiginlegt en um leið hlúð að því sértæka. Þetta hefur tekist með svo farsælum og árangursríkum hætti að Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda í landinu. Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum og í nánu samráði við fyrirtækin sjálf. Þjónusta við félagsmenn er annars vegar við einstök fyrirtæki og starfsgreinahópa en hins vegar þverfagleg, s.s. í gæðamálum, menntamálum og markaðs- og kynningarmálum.

Meðal þess sem Samtök iðnaðarins fást við er að:

  • Bæta almennt rekstrarumhverfi með því að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda
  • Fylgjast með alþjóðlegri þróun í atvinnurekstri
  • Fylgjast með og hafa áhrif á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, einkum gagnvart ESB
  • Stuðla að hagkvæmum rekstri með því að innleiða nýjar og bættar aðferðir við stjórnun og rekstur
  • Gæta þess að farið sé að reglum á markaði
  • Efla samstarf fyrirtækja
  • Veita þjónustu og ráðgjöf

Skrifstofa Samtaka iðnaðarins er til húsa á 4. hæð í Borgartúni 35 í Reykjavík. 


Iðan Fræðslusetur

IÐAN fræðslusetur ehf. varð til við samruna fjögurra fræðslumiðstöðva í iðnaði og ferðaþjónustu vorið 2006. Um áramótin 2006/2007 bættist síðan Fræðslumiðstöð bílgreina í hópinn. Eigendur IÐUNNAR eru: Samtök iðnaðarins, Samiðn, MATVÍS, Grafía, FIT, VM, Bílgreinasambandið, Samtök ferðaþjónustunnar og Meistarafélag húsasmiða.

Hlutverk IÐUNNAR er fyrst og fremst að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í iðnaði. IÐAN hefur hlotið EQM (European Quality Mark) gæðavottunina sem er staðfesting á því að námskeið IÐUNNAR standast evrópskar kröfur um gæði fræðsluaðila. Með stofnun IÐUNNAR er komið tækifæri til að þjóna þessum iðngreinum með miklu markvissari hætti en verið hefur.

Eitt helsta markmið IÐUNNAR fræðsluseturs er að vera stöðugt í fararbroddi í símenntun iðngreina og stuðla þar með að framþróun í iðnaði og eflingu atvinnulífs. Til að ná því markmiði er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og styðja við þróun og nýsköpun í iðnaði sem hefur áhrif á bæði samfélag og umhverfi. Þróunarverkefni taka mið af stefnu og grunngildum IÐUNNAR  sem eru: framsækni, virðing og fagmennska


Myndstef

Myndstef var stofnað árið 1991. Tilgangur samtakanna er að fara með höfundarétt félagsmanna vegna opinberra endurbirtinga og sýninga á verkum þeirra og stuðla að almennri höfundaréttargæslu á þessu sviði. Myndstef innheimtir þóknun fyrir notkun á höfundarétti félagsmanna sinna og kemur henni til skila til þeirra. Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni.

Aðilar að samtökunum eru félög; myndlistarmanna, ljósmyndara, teiknara, leikmynda- og búningahöfunda, arkitekta, hönnuða og ýmissa annarra stofnanna og einstaklinga sem fara með höfundarétt myndverka.
Myndstef fylgist einnig með og leitast við að hafa áhrif á þróun laga og reglna svo og viðskiptahátta á þessu sviði og annast samningagerð félagsmanna við opinbera aðila og einkaaðila um höfundaréttarleg hagsmunamál félagsmanna.

Myndstef veitir félagsmönnum sínum lögfræðilega ráðgjöf varðandi höfundarétt og gerð samninga.