DV.is – Ragnar Th. á bestu ljósmynd ársins

DV.is Við vekjum athygli á grein í DV um Ragnar Th. Ljósmyndara.

 

Ragnar á bestu ljósmynd ársins samkvæmt Mashable: „Þetta er náttúrulega engu líkt“

Hefur tekið fjölmargar myndir af eldgosinu í Holuhrauni – Time, New York Times, Nature og fleiri hafa áður nefnt myndirnar hans Ragnars þær bestu

Ragnar ásamt myndavélinni sinni og eldsumbrotunum í Holuhrauni.

Sjónarspil Ragnar ásamt myndavélinni sinni og eldsumbrotunum í Holuhrauni.

Mynd: Arctic Images / Ragnar Th. Sigurðsson

„Það er voða gaman sko. Hversu miklu máli skiptir það, ég veit það ekki. Þetta kitlar egóið bara ponkulítið en ég held að þetta skipti ekki máli svona businesslega séð þegar til lengdar lætur. En það er gaman að þessu,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Th. Sigurðsson í samtali við DV.is í dag.

Ljósmynd Ragnars af eldsumbrotunum í Holuhrauni var valin besta mynd ársins 2014 af fréttasíðunni Mashable, sem á höfuðstöðvar sínar í New York í Bandaríkjunum. Þá var önnur mynd Ragnars jafnframt á listanum, sem er einnig tekin af eldsumbrotunum.

Þetta er besta mynd ársins, samkvæmt vefsíðunni Mashable. Á myndinni er Ásdís, eiginkona Ragnars.

Eldur og hraun Þetta er besta mynd ársins, samkvæmt vefsíðunni Mashable. Á myndinni er Ásdís, eiginkona Ragnars.

Mynd: Arctic Images / Ragnar Th. Sigurðsson

Myndirnar margsinnis valdar bestar

Þetta er ekki eini fjölmiðillinn sem hefur valið mynd eftir Ragnar sem eina af þeim bestu á árinu, því tímaritið Nature valdi aðra mynd Ragnars af eldsumbrotunum þá bestu. Þá segir Ragnar fjölmiðla á borð við New York Times og Time Magazine hafa valið myndir hans af eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 sem þær bestu það árið. Auk fleiri tímarita og vefsíðna. Ragnar bendir á að það séu teknar yfir 850 milljarðar mynda á árinu og því sé gaman að hans myndir séu valdar úr þessum risavaxna hópi, en Yahoo spáði því fyrir um ári síðan að á þessu ári yrðu teknar um 880 milljarðar mynda.

„Svo vakti það líka rosalega mikla athygli þegar ég flaug drónanum yfir gosið og við flugum inn í gýginn þannig að það bráðnaði myndavélin,“ segir Ragnar en fjallað var um atvikið bæði í íslenskum og erlendum fjölmiðlum. „Það vídjó var kosið drónavídjó ársins, einhvers staðar á netinu,“ segir Ragnar.

The New York Times valdi mynd Ragnars þá bestu árið 2010.

Á síðum bandarískra fjölmiðla The New York Times valdi mynd Ragnars þá bestu árið 2010.

Mynd: Aðsend

„Stórhættulegur fjandi“

Ragnar hefur farið nokkrum sinnum að eldgosinu í Holuhrauni og myndað það. Þá var hann fyrir norðan þegar það byrjaði að gjósa og segist hann hafa farið strax á staðinn. „Þetta er náttúrulega engu líkt. Stórhættulegur fjandi út af gasi og drasli og færð og svona. Erfitt með flottar leiðir. Maður þarf að velja sér tíma og veður og vindáttir og svona, til þess að gera þetta. Vera dálítið meðvitaður, hafa gasgrímur og leyfi,“ segir hann.

Ragnar kveðst halda að hann hafi myndað öll eldgos á Íslandi síðan árið 1975, þegar Kröflueldar hófust. Þá hefur hann gefið út nokkrar eldfjallabækur í samstarfi við Ara Trausta Guðmundsson, jarðfræðing og fjölmiðlamann. Ragnar segist eiga von á því að fara aftur að eldgosinu í janúar. „Það er flug sem er búið að bjóða mér í sem verður líklega þá. En þetta hefur ekki breyst mikið undanfarið þannig að ég hef svosem ekki miklu við það að bæta, við það sem ég á. Ég er búinn að taka svo ofsalega mikið,“ segir hann.

„Ég sé á myndunum miklu meira en það sem ég sé þegar maður er á staðnum af því það er svo mikið að taka inn.“

Hann lýsir upplifun sinni á því að vera á staðnum og horfa yfir eldsumbrotin samanborið við það að skoða myndirnar gaumgæfilega þegar heim er komið á ný. „Ég sé á myndunum miklu meira en það sem ég sé þegar maður er á staðnum af því það er svo mikið að taka inn. Þegar maður er á staðnum og þegar maður flýgur yfir og svona, þetta er svo mikið. Það er svo mikið af upplýsingum. Svo þegar maður fer að skoða myndirnar í rólegheitum, nákvæmlega, þegar maður súmmar inn og skoðar þá fær maður miklu gleggri mynd í höfuðið, eða ég geri það. Og næ allt öðrum skilningi á þetta. Þegar maður fer að skoða – skoða útlitið á hrauninu, sjá hvernig þetta bubblar og gerist og sjá þetta allt í einhverju samhengi. Ég verð alltof æstur þegar ég er á staðnum.“

Time valdi ljósmynd Ragnars þá bestu árið 2010.

Eyjafjallajökull Time valdi ljósmynd Ragnars þá bestu árið 2010.

Mynd: Aðsend

Selur myndirnar erlendis

Ragnar hefur starfað sem ljósmyndari frá árinu 1975, þegar hann hóf störf á Dagblaðinu. Þar var hann til ársins 1980 þegar hann hóf störf á Vikunni. Að nokkrum árum liðnum fór hann að starfa sjálfstætt og hefur hann gert það síðan. „Ég vinn við það að taka myndir og selja erlendis, víða um heim. Myndirnar eru settar í ákveðna myndabanka og síðan seldar erlendis. Þannig að ég er í útflutningi. Gjaldeyrisskapandi ljósmyndari,“ segir Ragnar.

Hann segir markaðinn hafa minnkað eftir hrun. „Það er eiginlega enginn markaður á Íslandi þannig að maður verður að hafa eiginlega allar sínar tekjur erlendis frá og verður bara að selja úti í heimi. Það er eina leiðin.“

 

Heimild  DV.is

http://www.dv.is/folk/2014/12/22/ragnar-bestu-ljosmynd-arsins-samkvaemt-mashable-thetta-er-natturulega-engu-likt/

 

ljosmyndDV.is – Ragnar Th. á bestu ljósmynd ársins