Hættir þegar hæst stendur


Fjölmargir voru saman komnir í kveðjuhófinu. Fríður Eggertsdóttur er önnur frá hægri. Mynd/Golli
Ljósmyndastofan Svipmyndir á sér langa sögu. Stofan var stofnuð árið 1977 af Sigurgeiri Sigurjónssyni og Guðmundi Ingólfssyni og var það lengi til húsa að Hverfisgötu 18,gegnt Þjóðleikhúsinu. Fríður hefur starfað á stofunni frá upphafi, fyrst sem aðstoðarkona Sigurgeirs. Ljósmyndastofan dafnaði vel og um tíma störfuðu þar 3 ljósmyndarar auk aðstoðarfólks.
Í upphafi ársins 2001 fluttu Svipmyndir sig um set yfir á Hverfisgötu 50 og á sama tíma varð Fríður eini eigandi stofunnar.
Ótrúleg þróun í faginu
Að sögn Fríðar hefur ljósmyndabransinn breyst mikið á þessum 36 árum. „Við höfum farið úr filmuvinnslunni yfir í þetta stafræna. Það er ekki lengur kompuvinna með filmum og „ekta pappír“ eins og maður sagði. Núna er þetta allt komið í tölvurnar og stafrænar vélar þannig þetta er ótrúleg þróun.“
Aðspurð segir Fríður að það sé vissulega minna að gera á ljósmyndastofum eftir að stafræn ljósmyndun var eins aðgengileg og hún er í dag. „Í þessu stafræna umhverfi þar sem þorri landsmanna er kominn með góðar myndavélar og allskonar forrit til að vinna myndirnar í verður minna að gera. En þeir sem koma á ljósmyndastofu sjá muninn, hann er alveg gífurlegur.“
Svipmyndir var ein fyrsta ljósmyndastofan hér á landi sem lagði áherslu á passamyndir og hefur ætíð státað sig af því að setja gæðin í þeim myndatökum í öndvegi. Samkvæmt Fríði hafði það mikil áhrif á stofuna þegar hætt var að nota passamyndir frá ljósmyndastofum í vegabréf.
„Það var heilmikill skellur þegar við hættum að taka myndir fyrir vegabréfin. Samt sem áður eru passamyndir ekkert annað en „portait“ myndir og að sjálfsögðu vandar maður sig við þær eins og allar aðrar myndatökur.“
Kveðjuhóf í kvöld
Í kvöld var haldið kveðjuhóf á Svipmyndum frá klukkan þar sem vinir og velunnarar stofunnar munu hittast til að kveðja Fríði og ljósmyndastofuna.
„Ég er bara mjög sátt við minn feril og eins og máltækið segir „Hætta skal leik þá hæst stendur.“ Mér finnst það eiga vel við á þessum tímamótum.“